FAXAFENI 5 • 108 REYKJAVÍK • SÍMI: 530-5402 • NETPÓSTUR: karl@aeskanbok.is

 

Handbækur

 

Við eigum nokkrar úrvalshandbækur:
Um kennslu og uppeldi
Um forvarnir gegn einelti
Um forvarnir vegna barna í áhættuhópum (með misþroska,ofvirkni, kvíðasjúkdóma, þunglyndi)
Um félagsstarf og frístundir íslenskra unglinga.


Að mörgu er að hyggja
— e. Ingvar Sigurgeirsson prófessor.
Handbók um undirbúning kennslu, fyrir kennaraefni og starfandi kennara. Bókinni er einkum ætlað að vekja til umhugsunar um þau fjölmörgu atriði sem huga þarf að þegar kennsla er undirbúin. Fjallað er um mismunandi aðferðir við undirbúning, leiðbeint um framsetningu markmiða, námsmat og val á kennsluaðferðum, námsefni, hjálpargögnum og kennslutækjum. Í bókinni er fjöldi gagnlegra ábendinga um söfn, námsefni, heimildir, vefslóðir og fleira. — 128 bls. — 2.350 kr.

Litróf kennsluaðferðanna — e. Ingvar Sigurgeirsson prófessor.
Grundvallarrit handa íslenskum grunnskólakennurum og kennaraefnum. Í henni er fjallað, m.a., um fas, framkomu og verklag kennara. Tekið er fyrir eðli og einkenni kennsluaðferða en níu aðalkaflar bókarinnar fjalla sérstaklega um útlistunarkennslu, þulunám og þjálfunaræfingar, verklegar æfingar, umræðu og spurnaraðferðir, innlifunaraðferðir og tjáningu, þrautalausnir, leitaraðferðir, hópvinnubrögð og sjálfstæð, skapandi viðfangsefni. Í bókinni er mikið af gagnlegum ábendingum til kennara um námsefni og fræðilegt efni. — 167 bls. — 2.850 kr.

Samskipti foreldra og barna — e. dr. Thomas Gordon. Ingi Karl Jóhannesson þýddi.
Afar vinsæl bók víða um heim. Í henni er mælt gegn einhliða valdi uppalenda í samskiptum barna og fullorðinna. Bókin kennir virka hlustun og sýnir á ljósan hátt jákvæðar aðferðir sem miða að gagnkvæmum skilningi milli barna og uppalenda. Mælt er með sameiginlegum lausnum þeirra á vandamálum svo að börnin geti litið á sig sem ábyrga aðila. — Þetta er bókin sem sálfræðingarnir Húgó Þórisson og Wilhelm Norðfjörð hafa notað til grundvallar námskeiðum sínum á undanförnum árum. — 288 bls. 2.490 kr.

Samskipti kennara og nemenda — e. dr. Thomas Gordon. Ólafur H. Jóhannsson lektor þýddi.
Leiðsögn fyrir kennara í skólum, á heimilum, vinnustöðum og íþróttasvæðum. Höfundur segir: “Kennsla er sammannlegt fyrirbæri, allir kenna. Foreldrar kenna börnum sínum, atvinnurekendur starfsmönnum, þjálfarar kenna leikmönnum, konur kenna eiginmönnum sínum (og gagnkvæmt). — Þessi bók fjallar um það hvernig kennsla getur orðið mun árangursríkari en hún að jafnaði er, hvernig kennsla getur fært þeim sem lærir aukna þekkingu og þroska og jafnframt dregið úr árekstrum og skapað aukinn virkan tíma til kennslu.”
Umsögn um bókina: “Þér hlýtur að þykja bókin, Samskipti kennara og nemenda, eins stórkostleg og mér fannst hún.” Dr. Charles R. Bruning, prófessor við kennaradeild Háskóla Minnesota. — 3.390 kr.

Gegn einelti — Handbók fyrir skóla — Ritstjórar: Sonia Sharp og Peter K. Smith. Ingibjörg Markúsdóttir sálfræðingur þýddi.
Í bókinni er fjallað um hagnýtar leiðir fyrir skóla í baráttunni gegn einelti. Hugmyndir og aðferðir sem þar koma fram eru byggðar á yfirgripsmiklum rannsóknum auk reynslu sérfræðinga við úrlausn eineltismála. — Fjallað er um það á aðgengilegan hátt hvernig skólar geta haft áhrif á einelti með mótun heildstæðrar stefnu í eineltismálum, námsskrármiðuðum úrræðum og réttum viðbrögðum þegar einelti kemur upp.- Gegn einelti á að nýtast vel jafnt skólastjórnendum sem öðru starfssfólki skóla auk tómstundaráðgjafa félagsmiðstöðva. Bókin getur ekki síður komið nemendum og foreldrum að góðu gagni. — 2.050 kr.

Gegn einelti — handbók — Harðspjaldamappa með ýmsu efni varðandi einelti. Í henni eru bæklingarnir: Forvarnir gegn einelti e. Vöndu Sigurgeirsdóttur — og Tekist á við einelti, efni sem gefið var út af National Youth Federation á Írlandi. Ernesto Hilmar Ramos þýddi.
Bæklingnum, Forvarnir gegn einelti, fylgja glærur til skýringar og eru þær með myndum Halldórs Baldurssonar. Hann byggist á kennsluaðferð sem beita má hjá hópi barna eða unglinga í skóla- eða tómstundastarfi. — Upplýsingaefni fyrir foreldra fylgir einnig.
Í bæklingnum, Tekist á við einelti, er fræðsluefni sem ætlað er tómstundaráðgjöfum til stuðnings við umfjöllun um einelti í skóla-, félags- eða íþróttastarfi. — 6.980 kr.

Birgir — e. Margréti Jóelsdóttur.
Bókin greinir frá tilviksrannsókn um Birgi sem er níu ára ofvirkur og misþroska drengur með sérstaka námsörðugleika. Sjálfsmynd hans varð snemma léleg og hann hefur sýnt alvarlegar hegðunartruflanir og andfélagslega hegðun, einkum utan skólans. — Góðar hugmyndir um lausnir koma frá starsfólki og er það óhrætt við að gagnrýna eigið starf. En dugir það til að leysa vanda barna sem eiga í svipuðum vanda og Birgir? Saga hans gæti átt við marga aðra pilta. Niðurstöður rannsóknarinnar eru athyglisverðar og geta átt við mun víðar. — 2.995 kr.

Félagsstarf og frístundir íslenskra unglinga
Í bókinni er greint frá viðamikilli könnun sem fór fram 1997 að frumkvæði Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. — Hún veitir grundvallarupplýsingar sem nauðsynlegar eru við stefnumótun og áætlanagerð auk fræðslu og upplýsingamiðlunar. — Könnunin var unnin af Rannsókn og greiningu ehf. — 2.990 kr.

Dreifum einnig bókunum:

Skrefi á undan — Elín Elísabet Jóhannsdóttir kennari tók efnið saman og fékk upplýsingar og efni frá sérfróðu fólki um málefnið — og þeim sem þekkja til af eigin raun. Útgefandi: IOGT á Íslandi, í samstarfi við Foreldrafélag misþroska barna og Geðrækt.
Í bókinni er forvarnaefni ætlað foreldrum barna í ákveðnum áhættuhópum — og öllum þeim sem koma að uppeldi og kennslu. — Börn með ofvirkni, kvíðasjúkdóma, þunglyndi og aðrar skyldar raskanir eru talin eiga meira á hættu en önnur börn að ánetjast áfengi og öðrum vímuefnum. Forvarnir fyrir þessa áhættuhópa þurfa að hefjast snemma og gegna foreldrar, kennarar og leikskólakennarar þar lykilhlutverki. Vanlíðan, slök sjálfsmynd og mikil hvatvísi eru helstu áhættuþættirnir og því er mikilvægt að finna leiðir til að styrkja börnin. — 1.790 kr.

Steinar — er dáinn — e. Vigdísi Stefánsdóttur blaðamann.
Sérstæð ævisaga sem lýsir einkennum ofvirkni og alvarlegum afleiðingum. Nauðsynleg hverjum þeim sem fæst við uppeldi og kennslu ofvirkra barna.
Sönn, einlæg og áhrifarík saga móður um ofvirkan son sem leiddist út í fíkniefnaneyslu og afbrot og tók eigið líf tæplega tvítugur. — Sagan rekur líf Steinars frá fæðingu; sagt er frá skólagöngu, erfiðleikum í umgengni, meðferðartilraunum og glímu við kerfið. Hún lýsir tilfinningum og sársauka þess sem horfir upp á barnið sitt tortíma sjálfu sér og getur ekkert að gert. — Útgefandi Stoð og styrkur. 104 bls. 2.490 kr.