Hið
óþekkta
furðuleg fyrirbrigði og óskýranlegir atburðir
eftir
Irmu Lauridsen
Bókaforlagið Æskan hefur nýverið gefið
út tvær bækur eftir Irmu Lauridsen, annars vegar
barnabókina Hundurinn sem átti að verða stór
og hins vegar sérkennilega bók sem heitir Hið
óþekkta. Í þeirri bók tekur Irma
viðtal við fjölda fólks sem allt á það
sameiginlegt að hafa upplifað undarlegustu hluti án
þess að eiga á þeim nokkra skynsamlega skýringu.
Allt þetta fólk segir af einlægni frá reynslu
sinni, sumt hefur aldrei fyrr eða síðar orðIð
fyrir neinu óútskýranlegu, annað vinnur með
ýmiss konar heilun og er því ekki alveg ókunnugt
dulrænum málefnum en samt sem áður eru þau
atvik sem það greinir frá í bókinni
bæði þeim og öðrum algerlega framandi.
Irma Lauridsen þarf vart að kynna. Hún er margfaldur
metsöluhöfundur í Danmörku og bækur hennar
hafa verið þýddar á níu tungumál.
Hún er rithöfundur af lífi og sál. Uppalin
á jósku heiðunum í Danmörku, samgróin
dýralífinu á bóndabænum, náttúrunni
sem hún umgengst af miklum innileika og virðingu; það
er ekki fráleitt að ímynda sér að hún
skilji bæði blóm og dýr og allavega er hún
sérfræðingur í mannssálinni því
hún kemur varla nokkurs staðar, eða hittir nokkra manneskju,
öðruvísi en að spjalla við hana um jákvæða
hluti og athuga hvort hún er hamingjusöm eða ekki.
Sjálf segist hún eiginlega standa fyrir utan þessa
bók, Hið óþekkta, þar sem hún
þekkti ekkert til þess konar efnis þegar hún
byrjaði að skrifa verkið. Sú andlega reynsla sem
fólk segir frá í bókinni er svo einstök
að maður verður bæði undrandi og hugsandi við
lestur hennar. Óneitanlega víkkar efni bókarinnar
okkar fátæklega sjóndeildarhring og skilur okkur
eftir með nýja sýn á heildaruppbyggingu tilverunnar.
Allir sem hafa einhvern minnsta áhuga á hinum óþekktu
vídddum, lífi á öðrum hnöttum og
orku af annarri tegund en þeirri sem við lifum í,
ættu að lesa bókina hennar Irmu því
frá lestrinum koma þeir miklu fróðari um mál
sem takmarkanir heilans gera manni erfitt um vik að skilja.
Anna Fr. Kristjánsdóttir
Susanne
Kafli
úr bókinni Hið óþekkta

eftir
Irmu Lauridsen
Við fórum til Ítalíu þegar sonur okkar,
Alex, var sex ára en þangað hafði hann aldrei
komið. Við fórum fyrst til Feneyja.
Feneyjar er stór borg og ég var svolítið
hrædd um að Alex týndist. Ég sagði honum
þess vegna frá kerfi í Feneyjum sem felst í
því að götuhellur eru lagðar á ákveðinn
hátt. Ef maður er á einni af stóru götunum
liggja hellurnar þannig að annaðhvort leiða þær
mann að Markúsartorgi eða að Rialto-brúnni.
Ég sagði líka að ef hann týndist ætti
hann að leita að einni af stóru götunum svo að
hann gæti fundið leiðina að Markúsartorgi
eða Rialto-brúnni.
Hann leit á mig eins og ég væri fífl og
ég sá á honum að þetta væri ekkert
mál. Hann sagði:
,,Ég týnist ekki."
En ég ítrekaði:
,,Ef þú týnist engu að síður skaltu
gera það sem ég hef sagt og þá getum
við alltaf fundið þig."
Strákurinn sagði enn einu sinni:
,,Ég týnist ekki! En þið getið
látið mig ráða ferðinni. Látið
mig vera fremstan!"
Við litum svolítið hissa á hann og ég
sagði:
,,Allt í lagi, vert þú fremstur."
Þannig gátum við haft auga með honum!
Hafðir þú þá einhverja hugmynd um
hvað það þýddi sem drengurinn sagði?
Nei. Við gengum um litlar götur í Feneyjum seinni
partinn. Við vorum sammála um að við ættum
að finna hótelið okkar. Við vildum hvíla
okkur og skipta um föt áður en við færum
út að borða.
Ef ég hefði átt að finna hótelið
hefði ég þurft að ganga frá Markúsartorginu
en ég gat einungis ratað þaðan. En þar
sem við höfðum gengið svo mikið um gerði
ég mér ekki grein fyrir því hvar við
vorum. Ef ég hefði átt að finna hótelið
hefðum við þurft að fara til baka.
Þegar ég sagði við Alex: ,,Nú skulum við
finna hótelið," sagði hann:
,,Já, nú ætla ég að finna það!"
Ég hugsaði: Finna það? Sex ára strákur!
Ég vissi ekki hvar við vorum. En drengurinn sagði með
sannfæringu í röddinni:
,,Já, ég finn það."
Ég hristi höfuðið. Hugsaði: Já, já,
það getur vel verið að við lendum á Markúsartorginu
ef við förum þá leið sem Alex vill. Hver
veit? Svo við eltum hann bara.
Þetta gekk vel. Við fórum fyrir tvö horn og
þá stóðum við við hótelið.
Höfðuð þið farið þessa leið
áður? Þá hefði drengurinn getað munað
hana.
Nei. Við höfðum aldrei farið þessa leið
svo að ég var mjög hissa. Ég gat ekki á
nokkurn hátt getið mér til um hvernig drengurinn
gat fundið hótelið. En staðreyndin var að hann
vissi nákvæmlega hvar það var og hann var ekki
eitt andartak í vafa.
Alex var ekki orðinn læs á þessum tíma
svo að hann hafði ekki lesið skilti eða eitthvað
sem vísaði á hótelið. Í rauninni
var ekkert skilti sem vísaði leiðina að
hótelinu.
Fyrst á eftir veltum við hjónin því
ekki mikið fyrir okkur hvað hafði gerst. Ég hugsaði
bara: Þetta var heppni. En eftir á sá ég
að þetta var ekki heppni. Hann var allt of viss.
Seinna kom í ljós að drengurinn vildi oftar vera
fremstur. Já, eiginlega alltaf.
Þegar við vorum að fara heim og tilbúin með
ferðatöskurnar okkar, stóð Alex með hendurnar
á handriði bátsins, leit yfir Feneyjar og sagði
hljóðlega: ,,En hvað það var gaman að
sjá Feneyjar aftur."
Ég hugsaði: Hvað var hann að segja? Hann hafði
aldrei áður komið til Feneyja.
Töluðuð þið um þetta þegar þið
komuð heim?
Já. Þegar við höfðum verið heima um
tvær vikur tók ég hann dag einn í fangið
og sagði: ,,Hvað meintir þú eiginlega með
því sem þú sagðir í bátnum
í Feneyjum?"
Hann hugsaði sig um dálitla stund. Svo sagði hann:
,,Já, en mamma, þú ert eiginlega ekki rétta
mamma mín."
Ég hugsaði: Hvað er drengurinn að segja?
Ég sagði: ,,Alex, ég er víst mamma þín.
Þú veist að ég fæddi þig."
,,Já," sagði hann, ,,ég veit það
en það er svolítið sem passar ekki..."
,,Sem passar ekki?" spurði ég hissa.
,,Nei," sagði drengurinn íhugull, ,,vegna þess
að... mamma mín er í Feneyjum."
,,Já, en..." byrjaði ég og stamaði svolítið,
,,þú hefur séð myndir af mér þegar
ég var ófrísk og það varst þú
sem varst í maganum á mér..."
,,Já," sagði hann, ,,ég veit það.
En ég átti heima í Feneyjum með mömmu
minni. Svo fenguð þið allt í einu leyfi til að
passa mig. Þannig eignuðust þið mig. Þið
áttuð bara að passa mig."
Spurðir þú hann um fleira sem hugsanlega gæti
útskýrt þetta?
Nei, ég held að við höfum ekki talað meira
um þetta þennan dag vegna þess að ég
var hrædd um að þrýsta á hann. En ég
hef fengið að heyra sögu hans smátt og smátt.
Í annað skipti, þegar hann vildi spjalla, spurði
ég hann:
,,Hvernig leið þér í Feneyjum?"
,,Okkur leið vel þangað til dálítið
gerðist," sagði hann.
,,Hvernig leið þér hjá mömmu þinni?"
spurði ég.
"Þegar ég var lítill," sagði hann,
"áttum við að flytja í hús sem einhver
var að byggja. Við fylgdumst með því þegar
verið var að byggja það. Þar hljóp
ég um og fór í feluleik með mömmu. Ég
faldi mig í herbergjunum. En við fluttum ekki í
húsið af því að pabbi dó."
,,Dó hann?" spurði ég hissa.
,,Já, lögreglumenn komu dag einn í bátnum
sínum og þeir sögðu að pabbi væri
dáinn."
,,Hvernig dó hann?" spurði ég.
,,Hann fékk nokkra fiskikassa ofan á sig," sagði
drengurinn öruggur. ,,Hann hafði nefnilega verið að
veiða."
Nokkra fiskikassa? hugsaði ég. Ég vissi vel að
það var veitt í lóninu en það hafði
Alex ekki séð þegar við vorum í Feneyjum
þannig að hann gat ekki vitað það í
tengslum við ferðina. Við höfðum hvorki séð
fiskimenn, fiskibáta eða kassa þannig að hann
gat alls ekki tengt þetta við ferðina.
Hann sagði að vegna dauða föður síns hefðu
þau ekki getað flutt í húsið. Hann hélt
áfram:
,,Við áttum ekki mikla peninga og þess vegna fluttum
við til ættingja okkar."
Í annað skipti sagði Alex: ,,Þegar við mamma
bjuggum hjá ættingjum okkar í Feneyjum áttum
við ekki mikla peninga svo að við fórum í
búð og keyptum spaghettí sem var ekki eldað
sama dag."
Nokkrum dögum síðar gat ég ekki setið á
mér að spyrja Alex:
,,Hvernig stóð á því að pabbi og
ég áttum að passa þig eins og þú
hefur talað um?"
Hann sagði að hann hefði veikst þegar hann bjó
í Feneyjum. Læknirinn kom í byrjun og skoðaði
hann. En þegar honum hrakaði hafði læknirinn ekki
tíma til að koma vegna þess að svo margir voru
veikir. Hann vissi ekki almennilega hvað hafði gerst meira
en allt í einu þurftum við pabbi hans að passa
hann.
Ég skildi seinna að hann hafði dáið þegar
hann var fimmtán eða sextán ára.
Töluðuð þið seinna um Feneyjaferðina?
Já. Alex sagði einu sinni:
,,Mamma, það er svolítið sem ég skil ekki.
Fína brúin sem við gengum yfir leit ekki svona út
þegar ég bjó þarna."
,,Hvernig leit hún út?" spurði ég forvitin.
,,Það var trébrú," sagði hann ákveðinn.
Rialto-brúin er nú úr marmara. En Alex sagði
að hún hefði einu sinni verið trébrú.
Ég reyndi að kanna þetta með því
að lesa ýmsar sagnfræðibækur og komst að
því að brúin hafði brunnið mörgum
sinnum og verið endurbyggð. Á 13. öld var brúin
kölluð Quartarolo-brúin. Hún var þá
vindubrú úr tré. Það var fyrst árið
1590 sem Rialto-brúin var gerð úr marmara en þannig
er hún í dag.
Ef Alex var uppi t.d. á tíma drepsóttarinnar
árið 1575 sem mig grunar - þar sem hann talaði
um allt það fólk sem veiktist - var Rialto-brúin
einmitt trébrú en aðeins fínni en brúin
var upphaflega. Þá var hún smíðuð
úr nokkrum bjálkum.
Tókst þú eftir hvort þetta hafði
áhrif á Alex?
Alex átti í vandræðum fyrst eftir að við
komum heim frá Feneyjum og hann var byrjaður í skólanum
eftir sumarfríið. Hann varð árásargjarnari.
Næstu tvö árin þurfti ekki mikið til að
hann reiddist í skólanum.
Ég spurði hann einu sinni hvað væri að og
hann sagði:
,,Ég veit stundum ekki hvor strákurinn ég er.
Strákurinn frá Feneyjum eða danski strákurinn."
Ég er viss um að um sé að ræða minningu.
Ég ímynda mér að þegar hann bjó
í Feneyjum hafi hann kannski orðið að vera árásargjarn
til að bjarga sér. Að hann hafi einfaldlega þurft
að olnboga sig áfram. Árásargirni hans var
í mínum augum eins og sú sem sést stundum
í stórborgum. Ég held að kannski hafi verið
erfitt að búa í Feneyjum á þessum tíma.
Hann átti ekki við þetta vandamál að stríða
áður en við fórum til Feneyja. Þegar við
vorum þar fannst mér hann ekki á nokkurn hátt
breytast hvað persónuleikann varðar. Hann gekk bara
á undan allan tímann og virtist vera stoltur. Hitt gerðist
seinna. Eftir að við komum heim.
Í fyrstu átti hann erfitt með að einbeita sér
og síðan komu námserfiðleikar í ljós.
Til að reyna að hjálpa drengnum sagði ég
dag einn:
,,Alex, er ekki eitthvað sem þú kunnir í Feneyjum
sem getur komið þér að góðum notum
hér? Eitthvað sem þú varst virkilega góður
í ?"
Hann sagði eftir að hafa hugsað sig um:
,,Veistu hvað, ég var mjög góður í
eplakasti. En ég hef engin not fyrir það hér."
Á tímabili fannst mér ég þurfa að
útskýra fyrir kennurum drengsins hvað væri
að gerast svo þeir gætu skilið hann betur. Þess
vegna kom ég á fundi þar sem ég sagði
hvers vegna hann gæti ekki alltaf áttað sig á
hver hann væri. Kennararnir góndu á mig þegar
þeir heyrðu þetta. En ég útskýrði
hvernig ég skildi það sem drengurinn hafði
sagt mér. Ég veit ekki hvað þeim fannst um
þetta.
Talaði hann meira um Feneyjar?
Nei, mér fannst að hér ætti að láta
staðar numið. Ég spurði Alex þess vegna ekki
lengur um neitt í tengslum við Feneyjar. Mér fannst
hann þurfa að vera í friði. Þótt
ég væri forvitin talaði ég aldrei meira um
þetta.
Árásargirnin minnkaði eftir því sem
tíminn leið. Og ég tók eftir því
að smám saman lokaðist fyrir það sem hann
hafði munað.
Þegar Alex var níu ára komst ég að
því að hann hefur vissar gáfur sem maður
verður ekki var við hjá mörgum. Hann gat t.d.
séð árur. Dag einn sagði hann þegar hann
leit á mig:
,,Ég sé að það er mikið grænt
í þér. En það sést best við
hliðina á þér."
Mamma getur líka séð árur svo að dag
einn sagði ég við hana án þess að
hafa sagt henni hvað drengurinn sagði:
,,Horfðu á mig. Af hvaða lit er mest í kringum
mig?" Hún sagði:
,,Græni liturinn er ráðandi."
Stuttu síðar sá ég að Alex virtist vera
svolítið leiður. Ég spurði hvað væri
að.
Hann sagði:
,,Einn af hjálpendum mínum er farinn og hann kemur ekki
aftur."
Ég hafði ekki talað við drenginn um andlega hjálpendur
þótt ég trúi því að við
höfum þá. Ég reyndi að hughreysta hann
með því að segja að hann fengi nýjan.
Um átta dögum síðar kom hann hlæjandi
og í góðu skapi og sagði:
,,Mamma, ég er búinn að fá nýjan hjálpanda.
Hann er svo skemmtilegur. Stundum hvíslar hann í
eyrað á mér. Hann segir oft eitthvað fyndið
og margt fleira. Ég get sagt krökkunum í skólanum
frá sumu og þeir hlæja að því.
En þeir vita ekki að þessu hefur verið hvíslað
að mér."
Hann sagði líka stundum að hann spyrði bara hjálpendur
sína ef hann ætti í vandræðum sem hann
gæti ekki fundið lausn á, og þá lagaðist
allt.
Það var mjög gott að sjá að hann var
orðinn glaður á ný. Og að taka eftir því
að hann var nú tilbúinn til að lifa lífi
sínu til fullnustu.