FAXAFENI 5 • 108 REYKJAVÍK • SÍMI: 530-5402 • NETPÓSTUR: karl@aeskanbok.is

Bókaútgáfan Æskan
Sagan

75 ár eru liðin síðan bók kom fyrst út hjá Æskunni. Hún nefndist Sögur æskunnar og var efnið eftir Sigurð Júlíus Jóhannesson, fyrsta ritstjóra barnablaðsins Æskunnar, frumsamið og þýtt. — Framkvæmdastjóri Æskunnar var þá Jóhann Ögmundur Oddsson og gegndi hann því starfi til 1963.


Næstu ár komu út þýddar bækur, t.d. Davíð Copperfield eftir Charles Dickens. Sigurður Skúlason íslenskaði. — 1937 komu út bækurnar Örkin hans Nóa og Kisubörnin kátu, í þýðingu Guðjóns Guðjónssonar. Þær voru gefnar út margsinnis næstu áratugi. Margir muna eflaust eftir þeim.

Kári litli og Lappi, eftir Stefán Júlíusson, er fyrsta íslenska sagan sem Æskan gefur út. Það var 1938. Tveimur árum síðar koma út bækurnar Kári litli í skóla og Ásta litla lipurtá eftir sama höfund — en þriðja bókin og sú síðasta um Kára er gefin út 1950, Kári litli í sveit. — Þessar fjórar bækur Stefáns heitins hafa verið gefnar út mörgum sinnum.
Útgáfan jókst hægum skrefum. Frá 1941 til 1951 komu út fjórar til níu bækur á ári, flestar 1949. Má þar nefna Oliver Twist (1943), Grant skipstjóra (1944), Á ævintýraleiðum (1945), Nilla Hólmgeirsson (1946), Litlu kvenhetjuna (1947), Spæjara (1948), Kappa (1949) og Tveggja daga ævintýr (1951).
Á þessum árum koma fram nokkrir íslenskir höfundar hjá Æskunni. Konur eiga þar ríkan þátt. Um er að ræða bókaflokka sem verða mjög vinsælir. Nefna má:
Öddu-bækurnar eftir Jennu og Hreiðar (fyrst 1946).
Dóru-bækurnar eftir Ragnheiði Jónsdóttur (fyrst 1947).
Toddu-bækurnar eftir Margréti Jónsdóttur (fyrst 1951).
Þá ritar Hannes J. Magnússon fjórar safnbækur á árunum 1946-1950: Sögurnar hans pabba, Sögurnar hennar mömmu, Sögurnar hans afa, Sögurnar hennar mömmu.
Helstu þýðendur fyrstu árin voru Sigurður Skúlason (frá 1933), Guðjón Guðjónsson (frá 1936), Hannes J. Magnússon (frá 1943), Marinó L. Stefánsson (frá 1945) og Sigurður Gunnarsson (frá 1947). Þýddar bækur eftir SG komu út að heita má á hverju ári sem útgáfan starfaði, frá 1947-1968, alls 18 bækur fyrir börn og unglinga. (Hlé varð á útgáfunni 1960-1963).

1964 tók Kristján Guðmundsson við af tengdaföður sínum sem framkvæmdastjóri en Jóhann Ögmundur var þá orðinn aldinn. Á því ári gefur hann út að nýju nokkrar vinsælar bækur og eykur við öðrum. Alls komu þá út níu bækur. Svipaður fjöldi er gefinn út til 1971, flestar 1968, 13 titlar. Langflestar bækurnar eru fyrir börn og unglinga en nokkrar fyrir fullorðna. 1966 kom fyrst út hin vinsæla bók Ævintýri barnanna og árið eftir Ævintýri æskunnar. Þær voru litprentaðar og gefnar út að nýju nokkrum sinnum. Ævintýri og sögur H.C. Andersens eru gefin út í þremur bindum 1970 (aftur 1979 og enn 1982) — og ritsafn Sigurbjörns Sveinssonar í tveimur bindum 1971. Þá kemur út fyrsta bindi Annála íslenskra flugmála eftir Arngrím Sigurðsson (2. bindi 1972 og 3. bindi 1973).

Árin 1972 til 1981 koma út tvær til fjórar bækur á ári en 1982 fimm. Nefna má bókaflokkinn Frumbyggja í þýðingu Jónínu Steinþórsdóttur — og Barnið hans Péturs sem Jónína þýddi einnig: Unglingurinn Pétur tekur að sér uppeldi barns síns og var óvenjulegt söguefni þá. Af íslenskum höfundum má nefna Óskar Aðalstein og Ragnar Þorsteinsson. Fyrsta bók Eðvarðs Ingólfssonar, Gegnum bernskumúrinn, var gefin út 1980 (hann var þá 19 ára) og árið eftir Hnefaréttur.
1982 var Karl Helgason ráðinn við hlið Kristjáns en hann hafði fengið hjartaáfall. 1983 voru gefnar út ellefu bækur. Af þeim má nefna Ólympíuleika að fornu og nýju eftir dr. Ingimar Jónsson og Við klettótta strönd, minningar fólks á Snæfellsnesi, eftir Eðvarð Ingólfsson, og hina sígildu bók Stefáns Júlíussonar, Kári litli og Lappi — einnig þýddar barnabækur: Margs konar dagar og Frú Pigalopp og jólapósturinn. Árið reyndist bókaútgefendum erfitt þegar upp var gert og í of mikið hafði því verið ráðist. Fram til 1997 voru gefnar út 2-6 bækur á ári. — Karl vann einnig við barnablaðið Æskuna frá 1984, sem ritstjóri við hlið Eðvarðs Ingólfssonar 1985-1987 en síðan einn. Kristján Guðmundsson lét af störfum vegna sjúkleika 1984. Guðlaugur Sigmundsson varð framkvæmdastjóri Æskunnar og IOGT 1985 en Karl annaðist útgáfumálin. Geirþrúður Kristjánsdóttir varð skrifstofustjóri 1994 er Guðlaugur hvarf til annarra starfa og Þórður Pálsson starfaði sem framkvæmdastjóri skamman tíma 1997-1998.

Gefnar voru út bækur eftir Eðvarð árlega til 1994 og vann hann að þeim jafnhliða námi síðari árin. 1984 og 1985 komu út unglinga- og metsölubækurnar Fimmtán ára á föstu — og Sextán ára í sambúð (hún seldist mest allra bóka það ár). Aðrar unglingabækur Eðvarðs seldust einnig mjög vel — Ástarbréf til Ara, Pottþéttur vinur, Meiriháttar stefnumót og Haltu mér — slepptu mér. Sama er að segja um viðtalsbækur sem hann skráði en þær voru Baráttusaga athafnamanns (Skúli á Laxalóni), Árni í Hólminum - engum líkur!, Lífssaga Ragga Bjarna — og Ævisaga listamanns (Róbert Arnfinnsson). Eðvarð hlaut verðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur 1988 fyrir bókina Meiriháttar stefnumót.

Hrafnhildur Valgarðsdóttir vann til verðlauna hjá Æskunni 1988 fyrir handrit að unglingasögunni Leðurjakkar og spariskór. Eftir hana voru einnig gefnar út bækurnar Unglingar í frumskógi, Dýrið gengur laust og Í heimavist.
Í tilefni 75 ára afmælis Stefáns Júlíussonar voru gefnar út 1990 enn að nýju og allar í senn bækur hans Kári litli og Lappi, Kári litli í skólanum og Kári litli í sveit. 150 sett voru í viðhafnaröskjum.
Frændi Konráðs, föðurbróðir minn, ævisaga Hermanns Vilhjálmssonar eftir Vilhjálm Hjálmarsson fyrrv. ráðherra, kom út 1989 og vakti mikla athygli. Æskan gaf út þrjár minningabækur Vilhjálms, “Hann er sagður bóndi”, Mannakynni og Ferðaslangur — einnig fróðleiksþætti í bókunum Blítt og strítt, Dugga frönsk og Þeir breyttu Íslandssögunni.

Latabæjarævintýrið hófst 1995 með útgáfu fyrstu bókar Magnúsar Schevings, Áfram, Latibær! Hún varð metsölubók og bækurnar Latibær á Ólympíuleikum (1996) og Latibær í vandræðum (1997) seldust einnig mjög vel. Á þessum bókum byggði Magnús leikrit sín og síðar sjónvarpsþætti sem öðlast hafa geysimiklar vinsældir víða um heim.

Eva og Adam, sagan um félagana, skólann og skotin, kom út 1996, sú fyrsta af átta bókum í framhaldsflokki sem hitti í mark hjá krökkum.

1998 var ákveðið að fjölga útgáfubókum og var þá Ólafur Loftsson ráðinn framkvæmdastjóri og Árni Árnason útgáfustjóri. Karl vann að hluta með þeim en einnig sem framkvæmdastjóri IOGT og ritstjóri Æskunnar fram á mitt ár 2000.
Hafin var útgáfa kennslubóka, einkum til nota í Kennaraháskólanum. Litróf kennsluaðferðanna eftir Ingvar Sigurgeirsson kom út 1998 og Að mörgu er að hyggja, eftir sama höfund, 1999. Samskipti foreldra og barna eftir dr. Thomas Gordon var gefin út sama ár. Þá voru gefnar út bækur og verkefnamöppur um einelti.
Gefnar voru út, eftir útboð Ríkiskaupa, kennslubækurnar Auðvitað eftir Helga Grímsson - í þremur heftum, ásamt kennsluleiðbeiningum. Árni Árnason var ritstjóri.
Áhersla var lögð á skemmtilegar léttlestrarbækur og voru td. gefnar út bækurnar Ómögulegir foreldrar, Dagbók drápskattar og Þorri og Þúsundfætlan.
Þá hófst útgáfa Geitunganna eftir Árna Árnason, afar vinsælla verkefnahefta fyrir börn sem vilja læra að lesa og reikna — með Geitungnum 1 (1999). Hann hefur nú verið prentaður níu sinnum! og í kjölfarið hafa fylgt Geitungarnir 2-4, Ferðageitungurinn og Talnageitungurinn.

Vandaðar, fræðandi bækur fyrir börn voru gefnar út, fjölfræðibókin Veröldin okkar (2000) og tvær bækur í flokknum Ég veit af hverju...: Dúdúfuglinn dó út og Kengúrur eru með poka (1999)

Efnt var til samkeppni árið 2000 um handrit að myndskreyttri barnabók og urðu Þorgrímur Þráinsson (höfundur texta) og Þórarinn Leifsson (höfundur mynda) hlutskarpastir með söguna Kýrin sem hvarf.

Ógnaröfl, spennubækur handa unglingum, komu út í kiljum 1999 til 2002. 1. hlutinn var níu litlar bækur en 2. og 3. hluti þrjár bækur hvor í stærra broti. Bækurnar eru sérstaklega miðaðar að því að örva lestraráhuga ungmenna. Umhverfi sögunnar er ævintýralegt og hún mjög spennandi.

Nokkrar bækur fyrir fullorðna komu út: Ólafur biskup — Æviþættir — skráð af sr. Birni Jónssyni, Magnús organisti — Baráttusaga alþýðumanns — skráð af Aðalgeir Kristjánssyni og Fyrir norðan lög og rétt eftir Ejnar Mikkelsen í þýðingu Hlés Guðjónssonar. Þá var Fuglaspilið eftir Óskar J. Sandholt með myndum Jóhanns Óla Hilmarssonar gefið út árið 2000.

Ólafur og Árni létu af störfum í árslok 2000 og Karl Helgason tók við. Ákveðið var að útgáfubókum skyldi fækkað að mun. Af bókum 2001 til 2004 má nefna Geitunginn 4, Ferðageitunginn og Talnageitunginn eftir Árna Árnason, þrjár bækur í framhaldsflokknum Einhyrningurinn minn (Galdurinn —Draumar rætast og Á ferð og flugi), Harry og hrukkudýrin og Að temja drekann sinn — auk Samskipta kennara og nemenda eftir dr. Thomas Gordon.

2004 var ákveðið að selja útgáfuna. Haft var samband við nokkur forlög sem ýmist höfðu ekki áhuga eða buðu lægra en stjórn Æskunnar ehf. gat sætt sig við. Fyrri hluta árs 2005 keyptu Karl Helgason og fleiri bókadeildina og stofnuðu Bókaútgáfuna Æskuna ehf.